Um verkefnið

Fyrir meira en hálfri öld hófst löng vegferð, vinna við að gefa út skjöl Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771, þegar Bergsteinn Jónsson síðar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands bjó bréf frá nefndinni og nokkurra embættismanna til útgáfu á vegum Sögufélags. Út komu tvö bindi, hið fyrra árið 1958 og síðara 1961. Undirbúningur hélt áfram að útgáfu bréfa embættismanna, en óráðið var þá hversu mikinn hluta safnsins ætti að gefa út. Nokkrar atlögur voru síðar gerðar á vegum félagsins að frekari uppskriftum, en því verki lauk ekki. Hér er hafist handa að nýju og stendur til að gefa út heildarsafn skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771, bréf og skýrslur frá almenningi, prestum, sýslumönnum, lögmönnum og öðrum embættismönnum veraldlegrar og andlegrar stéttar, auk allra gagna Landsnefndarinnar sjálfrar. Unnið hefur verið að undirbúningi þessa verks frá árinu 2012 og gefur Þjóðskjalasafn Íslands bréfin út í samstarfi við Ríkisskjalasafnið í Danmörku og Sögufélag. Bréf sem áður höfðu verið gefin út verða endurútgefin í heildarsafninu.