Landsnefndin sjálf

Landsnefndin fyrri var skipuð af konungi 20. mars 1770. Í henni áttu sæti þrír menn: Andreas Holt, „viceraadmand“ frá Osló, formaður nefndarinnar, Þorkell Fjeldsted, lögmaður í Færeyjum, og Thomas Windekilde, kansellíráð og fyrrverandi kaupmaður á Íslandi, en ritari var skipaður Eyjólfur Jónsson (Johnsonius), konunglegur stjörnuskoðari í Kaupmannahöfn. Landsnefndinni var ætlað að kanna almenna landshagi á Íslandi og leggja fram úrbótatillögur um hvað eina sem kynni að verða landinu til gagns og nytsemdar. Áætlað var að nefndarmenn dveldu rúmt ár á Íslandi eða frá vordögum 1770 fram á haust 1771, þar sem þeir skyldu kynna sér allar aðstæður af eigin raun. Aðalbækistöð þeirra á meðan þeir voru á Íslandi var í tukthúsinu við Arnarhól í Reykjavík.