Markmið

Hugmyndin að baki þessari útgáfu er að allt skjalasafnið verði gert aðgengilegt, bæði innsend gögn til Landsnefndarinnar sem og það efni sem nefndin sjálf vann, formlegar greinargerðir og vinnugögn. Útgefin skjöl sem eru endurútgefin í þessari útgáfu verða lesin saman að nýju við frumskjölin. Bækurnar verða sex talsins, auk vefbirtingar ljósmynda af frumskjölunum og uppskrifta þeirra. Í fyrsta bindi eru bréf frá almenningi og í því næsta verða bréf presta og prófasta. Þriðja og fjórða bindið innihalda bréf sýslumanna, lögmanna, landlæknis og fleiri embættismanna auk veraldlegra og kirkjulegra háembættismanna. Í fimmta bindi verða formleg bréf, fundargerðir og skýrslur Landsnefndarinnar sjálfrar. Sjötta bindið tengist einnig Landsnefndinni, en þar verða vinnugögn hennar, útdrættir og uppköst birt. Vefur með sögulegum upplýsingum um nefndina og sögulegt samhengi hennar verður unninn samhliða, bæði á íslensku og á dönsku.