Ferðir Landsnefndarinnar

Landsnefndarmenn lögðu af stað með skipi frá Kaupmannahöfn til Íslands 31. maí 1770. Ferðalag þeirra varði í meira en ár og komu þeir aftur til síns heima 12. september 1771. Koma nefndarinnar til Íslands hefur áreiðanlega þótt sæta nokkrum tíðindum og er hennar víða getið í annálum. Töluverð umsvif hafa einnig fylgt nefndinni. Fyrra sumarið réð hún sjö manns í fylgdarlið sitt um landið og síðara sumarið fimm manns. Þá greiddu nefndarmenn ávallt fyrir hestabeit og annan viðgjörning á viðkomustöðum. Ferðareikningur nefndarinnar er áhugaverð heimild um umsvif hennar og samskipti við landsmenn. Mun fleiri bréf skiluðu sér frá almenningi til nefndarinnar á þeim svæðum sem hún fór um en þar sem hún átti ekki viðkomu.