Hvaðan komu bréfin?

Bréf og greinargerðir bárust Landsnefndinni úr flestum sýslum landsins. Það var þó misjafnt eftir þjóðfélagshópum hvaðan bréfin helst bárust. Almenningur skrifaði nefndinni mun frekar frá þeim stöðum sem hún ferðaðist um þann tíma sem hún var í landinu frá vori 1770 til hausts 1771. Þannig vantar alveg almenningsbréf frá Austurlandi og Vestfjörðum. Prestar í Skálholtsbiskupsdæmi voru aftur á móti mun duglegri að skrifa nefndinni heldur en prestar á Norðurlandi. Flestir sýslumenn skrifuðu og svöruðu þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar og æðstu embættismenn landsins stóðu einnig sína plikt. Engin bréf bárust frá Vestmannaeyjum. Bréfin endurspegla vel landshlutamun, kvartanir almennings markast nokkuð af því hvernig jarðamálum var háttað, kvaðavinnu og mannslánum og góð mynd fæst af afgjöldum sem lögð voru á bændur og búalið.