Hverjir skrifuðu

Landsnefndinni fyrri bárust alls 183 bréf og greinargerðir frá landsmönnum. Flest bréfin komu frá almenningi, eða alls 74. Embættismenn skrifuðu 71 bréf, prestar og prófastar 36 en auk þess komu tvö frá kaupmönnum. Bréf frá hreppstjórum, bændum, hjáleigumönnum, handverksmönnum og meirihluta presta voru skrifuð á íslensku, en embættismenn og hærra settir prestar notuðu dönsku til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Nokkur bréf voru óundirrituð, meðal annars frá „Íslands fátæklingum“. Það er sérstakt við þetta bréfasafn hversu margir hópar fólks tóku sig saman til að skrifa nefndinni, miðað við þær heimildir sem tiltækar eru um daglegt líf á Íslandi í lok 18. aldar. Bréfin veita einstaka innsýn inn í hugarheim mismunandi þjóðfélagshópa í lok aldarinnar. Allir bréfritarar voru karlmenn svo að sýn á aðbúnað kvenna er eingöngu að fá með þeirra augum.