Skjalasafnið

Í skjalasafni, Landsnefndarinnar fyrri eru í heild um 4200 handritaðar síður, bréf, skýrslur og álit. Skjalasafnið er nú varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands á meðal skjala rentukammers, einnar af stjórnardeildum konungs í Kaupmannahöfn, en þar var nefndin stofnuð og þangað skilaði hún gögnum sínum og úrbótatillögum. Skjölin eru að stórum hluta á dönsku enda voru skrifin ætluð embættismönnum konungs í Danmörku. Skjalasafn Landsnefndarinnar var afhent Þjóðskjalasafni Íslands með skjalaskiptum milli Íslands og Danmerkur árið 1928. Þá afhentu Danir Íslendingum mikið magn skjala, einkum úr rentukammeri og danska kansellíinu, er varða sögu Íslands. Þessi höfðinglega afhending hefur allar götur síðan verið grundvöllur að rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslands á fyrri öldum.